Sagan okkar

Bara fyrir fínt fólk
Það voru einkum vel sigldir Íslendingar og efnamenn sem tileinkuðu sér kaffidrykkju fyrstir hér á landi snemma á 18. öld. Þeir voru svo sem ekki allir með það á hreinu hvernig skyldi bera sig að við kaffidrykkjuna. Skálholtsmenn reyndu þannig að elda graut úr kaffibaunum sem þeir fengu í hendurnar á fyrri hluta 18. aldar og þegar Alþingismenn voru kynntir fyrir þessum eðalvökva supu þeir kaffið úr skeiðum. Þeir höfðu þó komist upp á lagið með það um 1780.  Smám saman komst almenningur í kynni við þennan unaðsdrykk sem kaffið er og um miðja 19. öld má segja að kaffidrykkja hafi verið orðin nokkuð almenn á Íslandi. Baunirnar voru fluttar inn óunnar í sekkjum og brenndi fólk þær og malaði heima hjá sér.

Baunakaffi kallaðist það þegar aðeins voru notaðar malaðar baunir í kaffiuppáhelling, en þar sem baunirnar voru heldur dýrar, fundu menn ýmis ráð til að drýgja kaffið. Eitt ráðið var að sjóða kaffið, þ.e. að hita vatn að suðu og bæta þá kaffinu út í og láta suðuna koma upp örstutt. Hella því svo í gegnum kaffipoka – þannig fékkst meira fyrir minna. Sums staðar blönduðu menn rúgi við baunirnar við brennslu, kúmeni eða jafnvel töðu. Mestra vinsælda naut þó rót síkóríjurtarinnar.  Síkóría (jólasalat) var ræktuð víða um Evrópu fyrr á öldum og notuð til manneldis.

Í lok 18. aldar fóru Þjóðverjar að þurrka, rista og mala rót jurtarinnar með það fyrir augum að drýgja kaffi. Þessi aðferð varð mjög vinsæl og víða um álfuna risu kaffibætisverksmiðjur.

Sitt af hvoru tagi – kaffi og kaffibætir
Íslendingar hófu að flytja inn kaffibæti um miðja 19. öld og gekk hann undir nafninu „rót“ eða „export“ þar sem á erlendu umbúðunum stóð skýrum stöfum að varan væri til útflutnings. Á köflum var kaffi og kaffibætir notað til helminga við uppáhellingu og voru því gjarnan nefnd í sömu andrá. Þegar talað var um sína ögnina af hvoru var átt við kaffi og rót. Eða eins og segir í vísunni:

Afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suður á bæi
að sækja bæði sykur og brauð
sitt af hvoru tagi (kaffi og rót).

Oft er talað um rótsterkt kaffi og er það til komið vegna kaffibætisnotkunar fyrr á tíð.

Fyrsta kaffibrennslan
Íslendingar eignuðust sínar fyrstu kaffibrennslur skömmu eftir lok fyrri heimsstyrjaldar. Elsta heildverslun landsins, O. Johnson & Kaaber hf., sem stofnuð var árið 1906, hafði lengi flutti inn kaffi og kaffibæti, en setti eigin kaffibrennslu á laggirnar árið 1924. Höfuðstöðvar fyrirtækisins voru þá í Hafnarstræti 1-3 (Fálkahúsinu), og þar var kaffibrennslunni komið fyrir. Keyptar voru vandaðar vélar frá Þýskalandi og þegar brennslan tók til starfa 18. júní þetta ár, var hægt að brenna og mala uppundir 50 kg af kaffi á dag og þótti gott. Einn maður sá um alla framleiðslu og pökkun og ekki var dreifingarkerfið flókið í upphafi: Einn piltur á reiðhjóli með bögglabera sá um að koma kaffinu til helstu viðskiptavina.

  

1) Ólafur Hjartarson við fyrsta brennsluofn Kaffibrennslu O. Johnson & Kaaber hf. 2) Höfuðstöðvar O. Johnson & Kaaber í Hafnarstræti á fyrri hluta 20. aldar. 3) Kaffiauglýsing frá Kaaber um miðja síðustu öld.

Heimabrennsla kaffis var mjög algeng á þessum tíma, en kaffið frá Kaaber náði þó fljótlega að hasla sér völl og fjórum árum eftir stofnun brennslunnar voru sendisveinarnir orðnir fjórir. Það ár keypti fyrirtækið fyrsta útkeyrslubílinn, þriggja hjóla tryllitæki sem vakti alls staðar athygli vegfarenda.

Exportinn
Fyrirtækið flutti lengi inn tilbúinn kaffibæti frá þýska fyrirtækinu Ludvig David. Í kringum 1930 – þegar alheimskreppan fór að læsa klóm sínum um íslenskt samfélag – var allur gjaldeyrir skammtaður og innflutningshöftum komið á. Kom þá til greina að banna innflutning á kaffibæti. Stjórnendur O. Johnson & Kaaber sáu að við svo búið mátti ekki una og lögðu því drög að því að framleiða kaffibætinn hérlendis. Nýrri verksmiðju var komið á laggirnar í húsnæði H.P. Duus í Fischersundi þar sem Ludvig David kaffibætirinn var unninn úr hráefni frá hinu þýska fyrirtæki. 

  

 

 Kaffibætisverksmiðjan var fyrst til húsa í Fischersundi í Reykjavík. Á myndinni má sjá þau Svövu Skaftadóttur, Guðlaugu Pétursdóttur og Hjalta Jónsson að framleiða Export.

Exportinn var þekkt fyrirbæri og auðvitað ortu hagmæltir andans jöfrar um hann eins og annað:

Kaffisopinn indæll er
eykur fjör og skapið bætir
en langbest alltaf líkar mér
Lúðvíks Davíðs kaffibætir

 

 

 

Mulin rótin var seld í járnstaukum sem rúmuðu margar hringlaga plötur af þessu efni. Yfirleitt notuðu menn fjórðung eða helming af plötu fyrir hverja uppáhellingu. En það voru ekki síður umbúðirnar sem komu að gagni. Íslensk fljóð fundu það fljótlega út að rauðu pappírsumbúðirnar utan um staukana gáfu lit og með því að nudda þeim létt við kinn, mátti fá þennan fína kinnalit. Á tímum hafta og skömmtunar var þetta kærkomin búbót fyrir heimasætur sem vildu fá hraustlegra útlit!

Kaffibrennsla Akureyrar
Á svipuðum tíma vildu Norðlendingar einnig fá sitt kaffi tilbúið, brennt og malað. Akureyringurinn Stefán Árnason setti á laggirnar eigin kaffibrennslu sem var fyrst til húsa rétt austan við „Græna hattinn“, sem er viðbygging við eitt elsta hús Akureyrar og hýsir í dag kaffihúsið Bláu könnuna.    

 Græni hatturinn á Akureyri

Árið 1936 fjölgaði hluthöfum í kaffibrennslunni og meðal þeirra sem bættust í hópinn voru Samband íslenskra samvinnufélaga, SÍS, og Kaupfélag Eyfirðinga Akureyri, KEA. Í kjölfarið var nafni fyrirtækisins breytt í Kaffibrennslu Akureyrar og það flutt upp í Gil í byggingu þar sem veitingastaðurinn Rub 23 er nú.

Sögufrægt hús í Gilinu á Akureyri. Þarna var Kaffibrennsla Akureyrar til húsa frá 1941-1957. 

Þar var fyrir kaffibætisverksmiðjan Freyja og sameinuðust fyrirtækin 1941-1942 undir merkjum Kaffibrennslu Akureyrar. 

Og ekki voru Norðanmenn minni skáld en Sunnlendingar ef marka má þessa kaffibætisvísu:

Bollann minn höndum tek ég tveim
tunguna gómsætt kaffið vætir.
Einn sopi býður öðrum heim
ef í því er Freyju kaffibætir.

Kaffiverksmiðja við Sætún
Árið 1946 byggði O. Johnson & Kaaber nýtt verksmiðjuhús við Sætún í Reykjavík. Þangað flutti kaffibrennslan og með nýjum og öflugum vélum var framleiðslan aukin svo um munaði. Hægt var að brenna tvo baunasekki í einu á aðeins 15 mínútum og voru á hverjum degi brenndir og malaðir á milli 40 og 50 sekkir. Starfsfólki fjölgaði að sama skapi, um tíma unnu þar 12 manns við framleiðsluna. Kaffibætisverksmiðjan flutti svo þangað inn nokkrum árum síðar.

   

1. Verksmiðjuhús O. Johnson & Kaaber við Sætún. 2. Úr pökkunarsalnum við Sætún um miðja síðustu öld.

Bragi mætir á svæðið

Í fyrstu var kaffið frá kaffibrennslu Stefáns Árnasonar á Akureyri selt í ómerktum, brúnum bréfpokum. Upp úr 1936 var svo farið að merkja þessa brúnu poka Braga kaffi. Hver þessi Bragi var, fylgir ekki sögunni, en hann er enn við lýði og nokkuð sprækur miðað við aldur.

Reyndar eru tvær kenningar um Braga-nafnið, önnur er sú að hér sé átt við Braga úr norrænu goðafræðinni. Kona hans var Iðunn og ágætlega var goðið ættað, því faðir hans var enginn annar en sjálfur Óðinn. Bragi var mælskur mjög og  guð skáldskapar. Tenging hans við kaffi er hins vegar heldur óljós.

Hin kenningin – og raunar talsvert líklegri –  er að hið íslenska Bragakaffi dragi nafn sitt af verslunarborginni Bragança í Brasilíu líkt og Ríó-kaffi er kennt við hafnarborgina Rio de Janeiro.

Ríflega 20 árum eftir stofnun kaffibrennslu Stefáns Árnasonar fór svo Bragakaffið úr svart-hvítu kápunni sinni í gulan poka. Í kjölfarið sigldi svo rauði Santos-pokinn.

Fyrstu umbúðir Braga-kaffi

Sambandið byggði nýtt hús við Tryggvabraut á Gleráreyrum árið 1957 og þangað var kaffibrennslan flutt sama ár. Byggingin var ekki sérhönnuð fyrir kaffibrennslu en ágætlega fór þó um starfsemina – svo vel raunar, að fyrirtækið er þar enn.

Hús Kaffibrennslu Akureyrar nýbyggt 1957.

Fullkomin verksmiðja við Tunguháls
Og enn var byggt yfir íslenska kaffiframleiðslu. Árið 1967 var byggð sérhönnuð, nútímaleg verksmiðja fyrir kaffibrennslu O. Johnson & Kaaber við Tunguháls í Reykjavík. Afköst hennar voru mikil og góð enda tækin ný og öflug. Kaffinu var pakkaði í nútímalegar plastumbúðir og seldist sem aldrei fyrr. Helstu tegundirnar voru þá  Ríó, Java, Santos og Mokka. Kaffismekkur Íslendinga breyttist í samræmi við batnandi efnahag eftir seinna stríð og svo fór að menn þurftu ekki á því að halda að drýgja kaffið með aukaefnum. Eftirspurn eftir Exportinum fór því dvínandi og lagðist framleiðslan af á áttunda áratugnum.

Kaffibrennsla OJK við Tunguháls var tekin í notkun á sjöunda áratugnum

 

Nýjungar í umbúðum

Árið 1976  hóf Kaffibrennsla Akureyrar að pakka kaffinu í plastfólíuumbúðir, fyrst fyrirtækja á Íslandi. Geymist kaffið mun betur í slíkum pokum en bréfpokunum. Þróunin hélt áfram og Kaaber kynnti til sögunnar lofttæmdar álumbúðir í upphafi níunda áratugarins. Þá var öllu lofti tappað af, svo pakkinn varð glerharður.

    

Innflutt kaffi ógnar innlendri framleiðslu
Á níunda áratugnum og þeim tíunda tók íslenskur kaffimarkaður heldur betur breytingum. Innflutt kaffi beinlínis flóði yfir landið eftir að tollar á pökkuðu kaffi voru felldir niður upp úr 1982 og oft var staða íslensku krónunnar þannig að innflutta varan hafði sannarlega vinninginn hvað verð snerti. Þá létu stórkarlalegar sölutölur gömlu keppinautanna hér heima heldur betur á sjá. Þá fóru einnig fleiri innlendir kaffiframleiðendur á stjá. En annað breyttist líka: kaffismekkurinn. Íslendingar tileinkuðu sér í síauknum mæli kaffimenningu annarra þjóða, vildu núna fá rótsterkt espresso-kaffi sem útbúa varð með öðrum græjum en soðnu vatni og gamalli trekt: cappuchino með flóaðri og freyðandi mjólk, mjólkurþynnt latté-kaffi og þar frameftir götum. Nýjar tegundir og breyttar framreiðsluaðferðir sigldu í kjölfarið og ekki þótti lengur sérlega smart að hella upp á gulan Braga eða Ríó frá Kaaber.

Nýjar tegundir
En Bragi Kaaber lét ekki buga sig. Menn löguðu sig að breyttum aðstæðum og komu fram með tegundir sem stóðu þeim innlendu á sporði – og nöfn þeirra hljómuðu jafnvel erlend: Diletto og Rúbín svo eitthvað sé nefnt.

Eignarhaldið á Kaffibrennslu Akureyrar breyttist mikið á tíunda áratugnum – fyrst keypti KEA hlut SÍS og síðar færðist kaffibrennslan inn í eignarhaldsfélagið Kaldbak og þaðan inn í Sjöfn hf. Á þessum tíma varð mönnum sunnanheiða ljóst að afkastageta kaffibrennslu OJK var ekki nýtt sem skyldi vegna minnkandi eftirspurnar, sem einnig var vandamál hjá Kaffibrennslu Akureyrar. Menn lögðu höfuð í bleyti beggja vegna Holtavörðuheiðar og komust að þeirri niðurstöðu að ein kaffibrennsla myndi anna framleiðslu beggja og skynsamlegt væri að sameina kraftana.

Bragakaffi er drukkið víða – jafnvel á Grænlandsjökli! 

„Sameinaðir stöndum vér…“
Niðurstaðan varð sú að árið 2000 gerðist það sem einhvern tíma hefði þótt óhugsandi – þá sameinuðust þessir gömlu mótherjar, Kaffibrennsla Akureyrar og Kaffibrennsla O. Johnson & Kaaber – Bragi og Ríó. Ákveðið var að framleiðslan færi fram fyrir norðan en sölu og dreifingu yrði stýrt úr höfuðstöðvum O. Johnson & Kaaber fyrir sunnan. Vélarnar úr kaffibrennslunni við Tunguhálsinn voru seldar úr landi.
Nýja sameinaða fyrirtækið fékk nýtt nafn: Nýja kaffibrennslan hf. Áfram voru framleiddar gömlu tegundir forveranna, s.s. Ríókaffi, Kaaber Kólumbíukaffi og nokkrar tegundir af Bragakaffi. En nýir tímar kölluðu á tilraunir með nýjungar þá var farið að framleiða nýja línu af kaffi undir nafninu Rúbín – Sælkerakaffi. Þar var að finna ýmsar nýjar tegundir s.s. Kenyakaffi, ítalskt kaffi og espresso.  

Bragi kemur fljúgandi suður til samningafundar…
Árið 2004 keypti O. Johnson & Kaaber svo aðra hluthafa út úr Nýju kaffibrennslunni og hefur síðan átt fyrirtækið að öllu leyti.

  

Bygging Nýju kaffibrennslunnar á Akureyri

Rúbínkaffi, sem framleitt hafði verið fyrir norðan í nokkurn tíma, naut sívaxandi vinsælda og ákváðu eigendur NK að leggja aukna áherslu á það vörumerki. Þrjár tegundir af Rúbínkaffi héldu inn á markaðinn og stendur sókn þeirra enn yfir. Á vormánuðum 2009 var farið að bjóða baunir undir merkjum Rúbín og einnig nýja tegund, Baunablöndu Valdísar sem þróuð var af Valdísi Albertsdóttur starfsmanni OJ&K. Nýja tegundin er blanda af fimm baunategundum sem saman gefa ljúft og gott bragð.

 

Fyrirtækjakaffi – stórsala
Mikill hluti kaffisölunnar hjá Nýju kaffibrennslunni er til stórra notenda, s.s. mötuneyta og stofnana sem og fyrirtækja. Í samstarfi við heildsölu OJK býður NK alhliða lausnir fyrir kaffistofur, þ.m.t. kaffivélar, mjólkurduft, te, kakó, sykur og allt sem til þarf til að bjóða starfsmönnum og gestum upp á góðan kaffisopa á vinnustaðnum.

   

Alltaf nýbrenndir og malaðir
Þótt Nýja kaffibrennslan byggi á gömlum grunni er hún í anda sínum fersk og ný. Þannig mun hún halda áfram að sækja fram, bæði á neytendamarkaði sem og á kaffistofum fyrirtækja og stofnana. Við breyttar aðstæður í íslensku efnahagslífi árið 2009 er efling íslensks iðnaðar mikilvægari sem aldrei fyrr og áríðandi að þjóðin sameinist um að kaupa innlendar vörur fremur en innfluttar.
Stöndum saman – veljum íslenskt!

 

Gömlu kaffikerlurnar sem prýddu glugga OJK um árabil. Þær voru settar í geymslu 1968 og fundust ekki aftur fyrr en 1997 og þurftu þá að fara í svolitla andlitslyftingu.

Nýr Kaffibrennsluofn

Snemma ársins 2017 var ráðist í að skipta út gamla Gothot kaffibrennslu ofninum fyrir Probat ofn. Gamli ofninn hafði þjónað sýnu hlutverki vel í yfir 45 ár. Þar sem að framleiðandi gat ekki ábyrgst íhluti í gamla ofninn var ráðist í það að skipta honum út fyrir nýjan Probat ofn. Á sama tíma var breytt í tromluofn og er hann keyrður á gasi. Gamli ofninn var olíu kyndur. Með því að skipta yfir í gas fáum við hreinni bruna og meiri stjórn á brennslunum.  Með því að notast við tromluofn náum við svokallaðri hægristun á kaffinu sem gerir það að verkum að við náum fram bestu bragðeiginleikunum úr hráefninu.